Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag að krónan væri að verða viðskiptahindrun sem ekki væri hægt að búa við til langframa. Ingibjörg Sólrún sagði aðspurð að þessi skoðun hennar væri óháð þeim aðstæðum sem nú væru uppi í íslenskum efnahagsmálum.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, sagði að þessi afstaða hlyti þá væntanlega líka að vera óháð stjórnarstefnunni því hún væri ekki sett fram með þessum hætti.

Þegar Steingrímur spurði Ingibjörgu nánar út í þessa afstöðu svaraði hún því til að þetta væri grundvallarviðhorf sem tengdist því að fjármagsnsflutningar væru orðnir frjálsir og íslensku bankarnir alþjóðlegri. Í því ljósi stæðist það ekki til langframa að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil á þessu svæði.