Mette Marit, krónprinsess Noregs mun taka þátt í Glitnis maraþoninu í Ósló. En samkvæmt tilkynningu frá Glitni þá mun hennar hátign hlaupa 10 km.

Á morgun, sunnudag, fer fram Glitnis maraþon í Ósló, höfuðborg Noregs. Stefnir í að fjöldi hlaupara verði um sjö þúsund en fjöldi þátttakenda hefur vaxið frá því á síðasta ári, en þá hlupu 4500 manns í Glitnis hlaupinu þar í borg.

Í tilkynningu Glitnis segir að gríðarleg stemning ríki nú í Ósló vegna hlaupsins og að borgin sé nú merkt bankanum í bak og fyrir.

Elsti þátttakandinn í hlaupinu er 81 árs gamall og sá yngsti er 1 árs. Már Másson, forstöðumaður samskiptasviðs Glitnis, segir að bankinn líti á hlaupið sem mikilvægt lýðheilsuverkefni, og það sama eigi við um Reykjavíkurmaraþon Glitnis.