Alls voru gefin út krónubréf fyrir 9,5 milljarða króna í dag og voru þar að verki þýski landbúnaðarsjóðurinn, KFW, og Deutsche bank. Helmingur útgáfunnar var til eins árs og hinn til tveggja ára.

Greiningardeild Kaupþings banka bendir á að svo gæti verið að útgáfa Deutsche bank sé í einhverju eða öllu leyti endurnýjun á fyrri útgáfum því í lok mánaðarins eru um 10,5 milljarður á gjalddaga af útgáfu bankans. Hins vegar falla ekki fyrstu útgáfur KFW á gjalddaga fyrr en í byrjun apríl á næsta ári.

"Næstu dagar hljóta að teljast athyglisverðir á gjaldeyrismarkaði þar sem fyrstu gjalddagar krónubréfanna nálgast, en um 30 milljarðar koma til greiðslu á föstudaginn, með vöxtum. Ef marka má reynslu Nýsjálendinga þá gerðist harla lítið á þeim dögum sem gjalddagarnir lágu fyrir enda er almennt talið að markaðurinn sé tiltölulega framsýnn og fjárfestar höfðu þegar hnikað til stöðum sínum," segir greiningardeildin.