Krónubréf að nafnvirði 3 milljarða króna falla á gjalddaga í dag að viðbættum vöxtum. Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) var útgefandi bréfanna en bankinn hefur alls gefið út krónubréf að nafnvirði 27 milljarða króna.

Í morgunkorni Glitnis segir að heldur dauflegt hafi verið yfir krónubréfaútgáfu undanfarna mánuði þrátt fyrir mikinn vaxtamun við útlönd og hafa einungis verið gefin út krónubréf að nafnvirði 8 milljarða króna á 4. fjórðungi ársins. Á sama tíma hafa ríflega 15 milljarðar króna fallið á gjalddaga að deginum í dag meðtöldum.

Nettókrónubréfastaða hefur því minnkað á fjórðungnum en útistandandi krónubréf nema nú 368,5 milljörðum króna. Órói á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, skert aðgengi að lánsfé og aukin áhættufælni fjárfesta undanfarna mánuði virðast því vega þyngra en mikill munur á innlendum og erlendum skammtímavöxtum, segir í Morgunkorninu.

Stórir gjalddagar í byrjun næsta árs

Krónubréf að nafnvirði 100 milljarðar króna auk vaxta falla á gjalddaga á 1. fjórðungi næsta árs, þar af 65 milljarðar króna að nafnvirði í janúar. Enn er óvíst hvort framlengt verði í krónubréfastöðunni að einhverju leyti og telur Greining Glitnis að það muni ráðast af þeim skilyrðum sem verða á erlendum fjármálamörkuðum í byrjun nýs árs. Uppgjör stærstu fjármálafyrirtækja heims fyrir 4. ársfjórðung verða birt upp úr áramótum og munu varpa frekara ljósi á hversu víðfeðm áhrif undirmálslánavanda á bandarískum húsnæðismarkaði eru og ráða miklu um hvort áhættusækni fjárfesta sækir í sig veðrið að nýju.