Krónubréfaútgáfan (útgáfa erlendra fjármálafyrirtækja á á skuldabréfum í íslenskum krónum) stendur nú í tæpum 260 milljörðum króna, nú þegar ár er liðið síðan fyrsta útgáfan leit dagsins ljós í ágúst 2005.

Enn bætist við útgáfuna en á miðvikudaginn voru gefin út krónubréf fyrir alls 6 milljarða króna. Útgefendur bréfanna voru evrópski fjárfestingabankinn (EIB) og þýski landbúnaðarsjóðurinn KFW en báðar þessar fjármálastofnanir eru meðal stærstu útgefenda bréfanna. Þýski landbúnaðarsjóðurinn KFW er langstærsti útgefandinn og er skráður fyrir 71 milljarð króna, sem er litlu minna en samanlögð stærð allra flokka ríkisbréfa lánasýslunnar sem eru tæpir 78 milljarðar króna. EIB er næst stærsti útgefandinn og hefur gefið út fyrir 50 milljarða. Hvor um sig bætti við útgáfu fyrir þrjá milljarða síðastliðinn miðvikudag og er útgáfan til tveggja ára. Talsverður uppgangur hefur verið í krónubréfaútgáfunni í júní og júlí eftir talsverða lægð mánuðina þar á undan en útgáfan losar alls 25 milljarða á tímabilinu.

Greining Glitnis segir frá því í morgunkorni sínu í gær að útlit sé fyrir frekari útgáfu þar sem enn virðist vera næg eftirspurn eftir bréfunum meðal erlendra fjárfesta og útgáfan er einnig mun hagstæðari nú en þegar krónan var í sínum hæstu hæðum fyrr á árinu. Einnig er vaxandi eftirspurn erlendra aðila eftir ríkisskuldabréfum til marks um væntanlega krónubréfaútgáfu þar sem leiða má líkur að því að verið sé að kaupa þau á móti skiptasamningum í einhverjum mæli vegna krónubréfanna .