Evrópski fjárfestingarbankinn (EIB) gaf í gær út nýjan flokk krónubréfa fyrir fjórum milljörðum króna með gjalddaga í janúar 2010. Bréfin bera 10,25% vexti, að sögn greiningardeildar Glitnis.

?Alls hefur EIB nú gefið út krónubréf að fjárhæð 70,5 milljarða króna sem ekki eru komin á gjalddaga en EIB er þriðji stærsti útgefandi krónubréfa á eftir KFW (þýska ríkinu) og hollenska bankanum Rapobank. Samanlagt standa þessir þrír útgefendur að baki 57% heildarútgáfu krónubréfa fram til þessa,? segir greiningardeildin.

Hún segir að það sem af er ári hafa verið gefin út krónubréf að fjárhæð 155 milljarða króna en útistandandi krónubréf nema nú 370 milljörðum króna alls að nafnvirði.

?Útgáfa krónubréfa styður við gengi krónunnar að öðru óbreyttu. Að sama skapi veldur uppgreiðsla krónubréfa lækkun gengis krónunnar ef fjárfestar kjósa að framlengja ekki krónubréfaeign sinni. Á meðan vaxtamunur við útlönd er hár er hins vegar líklegt að krónubréfaútgáfan haldi áfram enn um sinn,? segir greiningardeildin.

Krónan

Gengi krónunnar hefur hækkað um 13% frá áramótum og síðustu þrjá viðskiptadaga styrktist krónan um ríflega 2% sem verður að teljast mikil styrking á svo skömmum tíma, samkvæmt greiningardeildinni.

?Útgáfa krónubréfa í gær ásamt stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur stutt við gengi krónunnar og aukið bjartsýni fjárfesta, en ríkisstjórnin boðar frekari lækkanir skatta á fyrirtæki og einstaklinga.

Við lokun markaða í gær stóð gengisvísitalan í 112,85 og hefur vísitalan ekki verið lægri frá því í mars á síðasta ári. Það sem af er degi hefur gengi krónunnar hins vegar lækkað og gera má ráð fyrir að einhverjir kjósi að taka hagnað eftir hækkun undanfarinna daga. Líklegra er þó að gengislækkunin sé tímabundin,? segir greiningardeildin.