Þeir fjármagnseigendur sem áttu krónur og keyptu evrur í útboði Seðlabanka Íslands á genginu 190 munu hugsanlega kanna rétt sinn þegar ríkið hefur ákveðið að semja við krónueigendur sem eftir sátu á genginu 137,5 að sögn Helga Péturs Magnússonar lögmanns sem hefur starfað fyrir krónueigendur. Þetta kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins um málið.

Haft er eftir honum að menn sem eiga tugi eða hundruð milljóna króna undir hljóta að kanna þá stöðu. Hann gerir ráð fyrir því að hann komi til með að hafa samband við umbjóðendur sína og gera þeim grein fyrir stöðunni til að kanna viðbrögð þeirra.

Uppgjörið gæti reynst flókið við þátttakendur í aflandsútboðum síðasta árs ef þeir eiga kröfu á ríkið að sögn Helga Péturs. Í júní í fyrra var 1.688 tilboðum tekið en fjárhæð samþykktra tilboða nam 83 milljörðum íslenskra króna. Þá var gengið 190 krónur á evruna og var eftirstandandi aflandskrónum komið fyrir á vaxtalitlum reikningum.

Hefðu þátttakendur í fyrra beðið hefðu þeir fengið um 20 milljörðum meir í sinn hlut.