Þegar áhlaupið á íslenska bankakerfið náði hámarki í byrjun október 2008 og almennir innlánseigendur kepptust við að tæma reikninga sína stóðu seðlageymslur bankanna gapandi tómar. Reiðufé kláraðist í bankakerfinu og ekki var hægt að ná í meira hjá Seðlabankanum, þrátt fyrir að á Reykjavíkurflugvelli stæði gámur fullur af glænýjum krónum.

Vandinn var sá að De La Rue Plc., breskt fyrirtæki sem annaðist peningaprentun fyrir Seðlabankann, heimtaði að fá greitt í sterlingspundum en Seðlabankinn hafði ekki lengur aðgang að breskum bankareikningi sínum. Þetta kemur fram í viðtali Bloomberg Business Magazine við Árna Tómasson, formann skilanefndar Glitnis, sem er hluti af umfjöllun tímaritsins um viðbrögð Íslendinga við bankahruninu.