Hagkerfi heimsins hafa sloppið við aðra kreppu og eru að færast í átt að stöðugleika. Þetta sagði Paul Krugman, hagfræðingur við Princeton háskóla og Nóbelsverðlaunahafi í ræðu í Kuala Lumpur, að því er fram kemur í frétt Bloomberg. Hann sagði að heimurinn gæti ekki náð bata í gegnum útflutning og jafnframt að nú eigi sér stað viðsnúningur í bandaríska hagkefinu.

Í samtali við CNBC sjónvarpsstöðina sagði Krugman að hagkerfi heimsins þyrfti á annarri innspýtingu að halda til að forðast að lenda í sömu sporum og Japan á síðasta áratug þegar landið glímdi árum saman við slakan vöxt.

„Góðu fréttirnar eru að þetta lítur ekki út eins og önnur stór kreppa. Í nokkra mánuði leit það þannig út,“ sagði Krugman í samtali við CNBC, og vísaði til Kreppunnar miklu á fjórða áratug liðinnar aldar. Hann sagði allt benda til þess að fallið hefði stöðvast og stöðugleiki væri að nást. Krugman sagði að þörf væri á meira fé til að örva hagkerfi heimsins og ná fram sjálfbærum bata. Of mikið væri gert úr ótta við verðbólgu og ef hún færi að kræla á sér mætti taka peningana út úr kerfinu aftur.