Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði og einn þeirra sem stigið hefur hér niður fæti og getur því talist til Íslandsvina, spáir því að fjármögnunarkostnaður Ítala muni rjúka upp úr öllu valdi og leiða til áhlaups á banka þar í landi.

Í bloggfærslu Krugmans frá í gær kemur fram að hann hafi litla trú á endurreisn evrusvæðisins, Grikkir muni í þjóðaratkvæðagreiðslu fella aðgerðaáætlunina sem leiðtogar ESB-ríkjanna náðu saman um í síðustu viku, evrópski seðalbankinn geti reynst lánveitandi til þrautavara þegar í harðbakkann slær og Grikkland fara í þrot. Í kjölfarið muni traust á evrópskan fjármálamarkað þverra og það leiða til nýrrar kreppu.

Í framhaldi af öllu þessu munu menn verða áhyggjufullir um styrk ítalskra banka, óttast að þeir kunni að fara á hliðina, ítalska ríkið sömuleiðis lenda í greiðsluvanda og skoða möguleikann á því að hætta evrusamstarfinu. Í framhaldi af því verði gert áhlaup á ítalska banka. Gripið verður til neyðarlokunar þeirra, evrunni kastað fyrir róða og ítalska líran innleidd á ný.

Sambærileg vandamál munu dreifa úr sér víða innan evruríkjanna og myntbandalagið smám saman liðast í sundur.