Spánn og önnur skuldsett evruríki geta komið sér undan harkalegum aðhaldsaðgerðum með því að kasta evrunni fyrir róða og taka upp sína fyrri gjaldmiðla. Það verður ekki auðvelt en er skárri kostur í kreppunni, að mati Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði árið 2008.

Þetta segir Krugman jafnframt einu færu leiðina til að bjarga evrunni.

Hann var gestur á ráðstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stöðu efnahagsmála hér í Hörpunni í fyrrahaust.

Krugman hefur um nokkurt skeið talað gegn evrunni og mælt fyrir því að evruríki í skuldavanda yfirgefið myntbandalag Evrópusambandsins og taki upp sína gömlu gjaldmiðla. Gengisfelling gjaldmiðlanna auki verðmæti útflutnings landanna, keyri hagvöxt upp og dragi löndin upp úr skuldafeni.