Máltækið græddur er geymdur eyrir virðist leika spilavítin í Las Vegas grátt í efnahagslægðinni sem nú ríkir. Á sama tíma og bankar og fjárfestar eru samansaumaðir, líkt og það er orðað í fétt Wall Street Journal, í kjölfar lausafjárþurrðar á fjármálamörkuðum, hafa neytendurséð sér sama leik á borði og stíga frá spilaborðunum.

Fjárhættuspil og annað sem því fylgir nýtur ekki lengur hylli sem dægrastytting. Enda ráðstöfunartekjur ekki jafn miklar og áður.

Eitt sinn var talið að samdráttur hefði lítil áhrif á spilavíti. En það reynist ekki rétt um þessar mundir. Spilavítin eru ansi viðkvæm fyrir samdrætti í efnahagslífinu: Sumarlægð gustar yfir rekstur spílavíta í Las Vegas.

En það sem öllu verra er, að þau eru skuldum vafin í kjölfar mikilla stækkana í góðærinu, meðal annars með kaupum á landi, auk þess sem mörg hver hafa verið skotspónn skuldsettra yfirtaka.

Telja líkur á gjaldþroti

Wall Street telur orðið talsverðar líkur á að spilavítin geti ekki staðið í skilum við lánardrottna sína, eða fari jafnvel í gjaldþrotameðferð, eftir að tekjurnar hafa farið æ minnkandi.

Sérfræðingar á hlutabréfamarkaði segja þessar aðstæður vera ein stærsta áskorun spilavíta í mörg ár: Hækkandi olíuverð, erfiðleikar á húsnæðismarkaði og önnur efnahagsvandamál neyða neytendur ekki einungis til þess að stunda fjárhættuspil í minna mæli, heldur eyða minna í lúxusbúðum og veitingastöðum, en á því þéna spilavítin mest. Sérfræðingar í að snúa rekstri illa staddra fyrirtækja við fá nú í æ meira mæli símtöl frá spilavítum, segir í fréttinni.

Lækka mat á 17 spilavítum á árinu

Alþjóðleg matsfyrirtæki hafa lækkað mat sitt á 17 spilavítum það sem af er ári. Sérfræðingur Moody’s segir að spilavítin geti nú upplifað mestu niðursveiflu sem orðið hefur fram til þessa.

Í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001 héldu ýmsir að rekstur spilavíta væri ónæmur fyrir næstum því hvaða áföllum sem er, en annað hefur komið á daginn. Þau eru „mannleg“ eftir allt saman. En fljótt skipast veður í lofti, og bankamenn um skoðun, því fyrir um hálfu ári voru bankamenn ansi hrifnir af spilavítum. Nú hinsvegar halda þeir að sér höndum, þrengja lánaskilmála og annað slíkt, segir í fréttinni.

J.P. Morgan lækkaði mat sitt á rekstrartekjum helstu spilavítanna og skrifaði í nótu að fjárfestar átti sig ekki á umfangi og tímalengd efnahagsniðursveiflunnar.