Kaupfélag Skagfirðinga (KS) og Árni Pétur Jónsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, hafa náð samkomulagi um kaup á Gleðipinnum, en Innherji greinir frá þessu. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, en Deloitte var ráðgjafi Gleðipinna við söluna.

Gleðipinnar er félag á afþreyingar- og veitingamarkaði, og starfa þar um 400 starfsmenn af nærri 20 þjóðernum. Undir félaginu starfa hamborgarastaðirnir American Style, Aktu Taktu og Hamborgarafabrikkan og pizzastaðirnir Shake & Pizza og Blackbox. Til viðbótar eru veitingastaðirnir Saffran og Pítan undir merkjum Gleðipinna og síðast en ekki síst Keiluhöllin. Félagið tók við rekstri trampólíngarðsins Rush í september í fyrra.

KS er fyrir eigandi að Metro og er unnið að endurbótum á þeim stöðum um þessar mundir, að því er kemur fram í grein Innherja. Þá mun Kaupfélagið og félag Árna Péturs, Hái Klettur ehf., eignast veitingastaðina American Style, Hamborgarafabrikkuna, Aktu Taktu og Blackbox, og afþreyingarstaðina Keiluhöllina og Rush trampólíngarð.

Fyrri eigendur munu þó áfram koma að eignarhaldi og rekstri á Keiluhöllinni og Rush. Þá munu kaupendurnir ekki eignast Saffran, Pítuna og hlutdeild Gleðipinna í Olifa - Madre Pizza og Icelandic Food Company.

Jóhannes Ásbjörnsson, talsmaður og einn eigenda Gleðipinna, segist ánægður með niðurstöðuna, en auk Jóhannesar eru aðrir eigendur Gleðipinna þeir Guðmundur Auðunsson, Bjarni Stefán Gunnarsson ásamt feðgunum Jóhanni Þórarinssyni og Þórarni Ragnarssyni.

„Við höfðum horft til þess í nokkurn tíma að fá til liðs við okkur öflugan samstarfsaðila. Þannig hófst samtal okkar við Kaupfélagið. Rekstur Gleðipinna hefur gengið vel og við erum sannfærð um að svo verði áfram. Gleðipinnafjölskyldan er stór og samhent og gott að vita af henni í góðum höndum nýrra traustra eigenda. Við óskum kaupendum til hamingju með samninginn og hlökkum til áframhaldandi samstarfs við þá,“ segir hann.

Sigurjón R. Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri KS, segir við Innherja að í kaupunum felist „spennandi tækifæri,“ en KS er fyrir eigandi að Metro og er unnið að endurbótum á þeim stöðum um þessar mundir. Þá keypti félagið Gunnars Majónes í sumar og er eigandi að félögum á borð við Esja Gæðafæði og Vogabæ.

„Gleðipinnar hafi lagt áherslu á gæði matar og þjónustu og það munum við gera áfram. Ennfremur er einstaklega hæfur hópur stjórnenda og starfsfólks í Gleðipinnum sem við hlökkum til að starfa með.“