*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 17. janúar 2021 18:01

KS setti hálfan milljarð í MS

KS jók hlutafé sitt í aðdraganda skiptingar MS. Ari Edwald sér mikil tækifæri í því að skerpa á áherslum erlendrar starfsemi.

Andrea Sigurðardóttir
Ari Edwald leiðir ný félög um erlenda starfsemi MS undir merkjum Íseyjar.
Haraldur Guðjónsson

Skipting Mjólkursamsölunnar (MS) í tvö sjálfstæð félög, hvar innlend og erlend starfsemi verður aðskilin, verður endanlega ákveðin á væntanlegum hluthafafundi.

Hluthafafundurinn hefur ekki verið auglýstur en í samtali við Viðskiptablaðið segir Ari Edwald, sem áður var forstjóri MS en snéri sér nýlega alveg að erlendu starfseminni, að fyrirhugað sé að halda fundinn síðari hluta þessa mánaðar.

Eftir skiptinguna, sem mun miðast við 1. september 2020, mun MS áfram fara með innlenda starfsemi en erlend starfsemi mun færast yfir í félagið MS erlend starfsemi ehf., auk þess sem MS eignarhald ehf. mun fara með hlut í bandaríska skyrfyrirtækinu Icelandic Provisions.

Við skiptinguna verður Ísey útflutningur ehf. dótturfélag MS erlendrar starfsemi, auk þess sem félagið mun fara með eignarhlut í Ísey Skyr Bars ehf.

Í aðdraganda skiptingar MS var hlutafé félagsins aukið um ríflega hálfan milljarð en Kaupfélag Skagfirðinga skráði sig fyrir öllum hlutum og varð hlutdeild þess í MS 20% í kjölfarið, á móti 80% eignarhlut Auðhumlu. Eftir skiptingu munu hluthafarnir ráða yfir sama hlutfalli í hinum nýju félögum.

Ávinningur í því að skerpa áherslur og fókus

Stefnt er að því að sameina MS erlenda starfsemi og dótturfélagið Ísey útflutning í eitt félag undir merkjum Íseyjar útflutnings, að sögn Ara. Það verði sjálfstætt ferli sem hefjist eftir að skiptingu félaganna hefur verið formlega lokið á komandi hluthafafundi.

„Skiptingin kann að hljóma flóknari en hún er. Þegar allt kemur til alls þá er verið að skipta fyrirtækinu í sjálfstæð félög um innlenda og erlenda starfsemi, þar sem innlendi hlutinn verður undir merkjum MS en erlendi hlutinn undir merkjum Íseyjar," segir Ari.

Aðspurður segir Ari skiptinguna fyrst og fremst koma til vegna lagalegs áskilnaðar um aðskilnað innlendrar og erlendrar starfsemi en að í henni felist einnig stjórnunarlegur ávinningur.

„Það felst töluverður stjórnunarlegur ávinningur í því að skerpa áherslur og fókus. Verkefni erlendu starfseminnar eru annars eðlis og þörf á því að forystan yfir þeim verkefnum einbeiti sér að þeim, og öfugt."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Ari Edwald Mjólkursamsalan Ísey