*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 3. febrúar 2018 11:17

KSÍ hagnast um 128 milljónir

Áætlað er að kostnaðurinn við A-landslið karla verði rúmlega milljarður í ár.

Ritstjórn
Guðni Bergsson, formaður KSÍ.
Haraldur Guðjónsson

Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hagnaðist um rúmlega 128 milljónir króna árið 2017. Er það undir áætlun, en gert hafði verið ráð fyrir 148,7 milljóna króna hagnaði.

Greint var frá rekstrarniðurstöðu ársins 2017 og fjárhagsáætlun árið 2018 á vef KSÍ í gær.

Rekstrartekjur KSÍ námu 1,4 milljörðum króna og rekstrarkostnaður 1,3 milljörðum. Styrkir og framlög námu rúmlega 750 milljónum. Þá nam kostnaður við landslið rúmlega 637 milljónum. Rekstrarhagnaður ársins fyrir fjármagnsliði og ráðstöfun til aðildarfélaga nam um 101 milljónum króna, en á árinu ráðstafaði KSÍ 179 milljónum til aðildarfélaga vegna styrkja til barna- og unglingastarfs, leyfiskerfis, mannvirkja og fleira.

Eigið fé KSÍ var 539 milljónir króna í lok síðasta árs. Rekstur KSÍ er sagður í jafnvægi og fjárhagsstaðan sögð traust.

Árið 2018 er áætlað að hagnaður KSÍ muni fjórfaldast milli ára. Áætlað er að rekstrartekjur verði rúmlega 2,4 milljarðar og rekstrarkostnaður rúmlega 2 milljarðar.

Spáð er að styrkir og framlög – þá helst frá Alþjóða knattspyrnusambandinu (FIFA) – aukist um tæpan milljarð á árinu. Er það einkum vegna HM í knattspyrnu næsta sumar, en kostnaður við A-landslið karla mun aukast úr 289 milljónum í rúman milljarð milli ára.

Stikkorð: KSÍ knattspyrna