Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) ber höfuð og herðar yfir önnur sérsambönd íþróttahreyfingarinnar. Heildarvelta sambandsins fór í fyrsta skipti yfir milljarð í fyrra en þá nam hún 1.067 milljónum króna.

Í úttekt Viðskiptablaðsins var einnig skoðuð velta fjögurra annarra sérsambanda eða Handknattleikssamband Íslands (HSÍ), Körfuknattleikssamband Íslands (KKÍ), Golfsamband Íslands (GSÍ) og Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ). Það er skemmst frá því að segja að KSÍ veltir tvöfalt meiri fjármunum á ári en hin fjögur samböndin gera samanlagt. Samanlögð velta HSÍ, KKÍ, GSÍ og FRÍ, nam 494 milljónum króna.

HSÍ er með næst mestu veltuna á eftir KSÍ. Árið 2013 nam velta HSÍ 192 milljónum, sem þýðir að KSÍ er með ríflega fimm sinnum meiri veltu. FRÍ er með minnstu veltuna eða 49 milljónir króna. Velta KSÍ er því 22 sinnum meiri en velta Frjálsíþróttasambandsins.

Árið 2011 nam velta KSÍ 766 milljónum. Frá þeim tíma hefur hún því aukist um 10 til 15% á ári. Handbært fé, sem gefur mjög góða vísbendingu um hæfni fyrirtækja eða í þessu tilfelli íþróttasambands til að mæta skuldbindingum sínum, nam 211 milljónum króna í fyrra.

Tekjur vegna sjónvarpsréttar jukust um 90 milljónir

Í fyrra námu tekjur KSÍ vegna sjónvarpsréttar um 393 milljónum króna en árið 2013 voru þær 305 milljónir. Þessar tekjur jukust því um tæpar 90 milljónir króna milli ára eða næstum 30%.

Þó að sjónvarpsrétturinn nemi um 37% af heildar rekstrartekjum KSÍ nema styrkir og framlög enn hærri fjárhæð. Í fyrra nam sá tekjuliður um 537 milljónum króna. Langhæsti styrkurinn kom frá Knattspyrnusambandi Evrópu (UEFA) eða 376 milljónir. Næsthæsti styrkurinn kom frá Alþjóðaknattspyrnusambandinu (FIFA) eða 76 milljónir.

Sjónvarpsréttur annars vegar og styrkir og framlög hins vegar nema samtals um 930 milljónum eða um 87% af rekstrartekjum sambandsins. Ekkert annað sérsamband fær neitt í líkingu við það sem KSÍ fær í styrki frá alþjóðasamböndum knattspyrnuhreyfingarinnar. Golfsamband Íslands greiðir til dæmis hærri fjárhæð til Evrópska golfsambandsins á ári en það fær til baka í styrki frá útlöndum.

Nánar er fjallað um fjármál KSÍ og annarra íþróttasambanda í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .