Kúbanska ríkið mun segja upp hálfri milljón ríkisstarfsmanna fram í mars á næsta ári.  Kemur til greina að fækka ríkisstarfsmönnum um allt að einni milljón á næstu misserum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kúbanska verkalýðssambandinu, eina opinbera verkalýðsfélaginu á Kúbu.

Yfir 85% þeirra sem hafa vinnu á Kúbu er starfsmenn ríkisins en starfandi menn á Kúbu er um 5,5 milljónir. Uppsagnirnar eru því verulegar, eða um 10% af starfsmönnum ríkisins.

Uppsagnirnar eru stærsta skref sem tekið hefur verið á Kúbu í átt til frjáls markaðshagkerfið frá falli Sovétríkjanna. Erfiðleikarnir á Kúbu hafa aukist mikið í fjármálakreppunni.  Bæði hefur ferðamönnum fækkað og útflutningur minnkað.

Kaþólska kirkjan varaði við því nýlega að ef stjórnvöld breyttu ekki um stefnu fljótt yrði vandræði eyjaskeggja enn skelfilegri en þau eru nú þegar.