Kúba á við mikla efnahagsörðugleika að stríða, en á sama tíma sitja íbúarnir hugsanlega á gríðarlegri ónýttir peningalind.

Fjögur ár eru síðan bandarískir sérfræðingar töldu að Kúba sæti nánast á toppi olíulindar sem hefði að geyma um 10 milljarða tunna af olíu.

Í umfjöllun á World News Network í dag kemur fram að Kúbu skorti tæknikunnáttu og getu til að bora eftir þessari olíu, en sú tækniþekking væri í ríku mæli handan við sundið í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn hafa líka mikla þörf fyrir nýjar olíulindir, en vandinn liggur í 47 ára gömlu viðskiptabanni ríkjanna.

Þetta kemur í veg fyrir að olíufélög í Bandaríkjunum sem bíða nú í hliðarlínunni og Kúpubúar sjálfir, geti fært sér í nyt mögulegan gríðarlegan hagnað af olíuvinnslu í landinu.

U.S. Geological Survey áætlaði árið 2005 að um 9,3 milljarðar tunna af olíu væru í hafsbotninum undan strönd Kúpu. Kúbanskir jarðfræðingar töldu hins vegar í október 2008 að þarna gætu leynst 20 milljarðar tunna af olíu. Þær spár eru þó taldar full bjartsýnar.

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur þegar viðrað hugmyndir um að létta á viðskiptahömlunum við Kúpu, sem gætu leitt til gríðarlegra fjárfestinga í olíuiðnaði í landinu. Talið er að olíuverðið þurfi að liggja í um 60 dollurum tunnan til að olíuvinnsla við Kúpu verði þokkalega arðvænleg.