Bandarískir sérfræðingar á olíumörkuðum telja að olíuverð muni hækka á heimsmarkaði næstu sex vikur eða út febrúar. Að sögn Magnúsar Ásgeirssonar, innkaupastjóra eldsneytis hjá Olíufélaginu, kemur þeta heim og saman við þá staðreynd að nú í lok þessa mánaðar hefur verið spáð vaxandi kuldum í Bandaríkjunum. Einnig er búist við að kosningarnar í Írak muni setja mark sitt á þróun olíuverðs og skapa óvissu vegna ótta um að átök og skærur geti blossað upp.

Þann 12. janúar voru birtar tölur um birgðir í Bandaríkjunum þann 7. janúar og þar kom fram, að birgðir af olíu til húshitunar jukust um nær tvær milljónir tunna, en hráolíubirgðir minnkuðu um nær þrjár milljónir tunna. "Olíukaupmenn spá því, að þegar líður að kosningum í Írak, þann 30. janúar muni órói á svæðinu við Persaflóa og hugsanlega verði gerðar árásir á olíuhreinsunarstöðvar þar. Í desember tóku OPEC ríkin ákvörðun um að minnka olíuframleiðsluna um eina milljón tunna á dag, frá og með 1. janúar og almennt er nú talað um það á olíumarkaði, að minna framboð verði á olíu í febrúar, en verið hefur í janúar. Fram að þessu hefur vetrarveðrið í Norðausturríkjum Bandaríkjanna verið mildarara en í fyrra, en spáð er kuldum í lok janúar, sem hefur þegar sett sitt mark á þróun olíuverðs sl. viku, vegna verulega aukinnar eftirspurnar og telja verður líklegt, að olíuverð muni hækka enn frekar í komandi viku," segir Magnús í pistli sínum á heimasíðu Olíufélagsins.

Nú er því spáð að hráolíuverð í febrúar verði um 44 dollarar á tunnu.