Kuldaskeið er hafið í Barentshafinu. Sjávarhiti þar hefur á síðustu fimm árum lækkað að jafnaði um eina gráðu. Sérfræðingar telja að kólnunin verði viðvarandi að minnsta kosti fram á fjórða áratug aldarinnar áður en sjávarhiti hækkar á ný.

Sagt er frá þessu á vef norska ríkissjónvarpsins, NRK. Sjávarhiti í Barentshafi hækkaði allt fram til ársins 2016. Það hafði  mikil áhrif á vistkerfið. Suðlægari tegundir breiddust út og tegundum, sem eiga náttúrulega heimkynni á norðusslóðum, hnignaði.

Snjókrabbi gott dæmi

Snjókrabbi er dæmi um þær breytingar sem eru að verða. Allt frá 2016 hefur hann breiðst út til vestur.

„Við teljum að snjókrabbi hafi helgað sér búsvæði á flestum þeim svæðum Barentshafsins sem á annað borð eru lífvænleg fyrir hann,“ segir Per Arneberg sem stýrir hópi norskra og rússneskra vísindamanna sem vakta vistkerfið í Barentshafi.

Hverjar afleiðingar kólnunarinnar verða til lengri tíma litið er óljóst en vísindamennirnir hafa skýra sýn til næstu ára.

„Við gerum ráð fyrir því að þorskstofninum hnigni talsvert á næstu árum. Á síðustu árum hefur einungis einn sterkur árgangur verið mældur þannig að líkur eru á að stofninn minnki. Um leið er líklegt að ýsugegnd verði meira en síldarstofnar líði fyrir þessar breytingar sem eru að verða í hafinu,“ segir Arneberg.

„Síldin heldur sig fyrstu þrjú árin í Barentshafinu áður en hún gengur inn í Noregshaf. Við höfum ekki fundið sterka, nýja árganga.“

Langtímaáhrifin eru til lengri tíma óviss sem fyrr segir.

„Kólnandi sjór getur haft áhrif á fjölda tegunda í Barentshafi. Afleiðingarnar verða auðvitað meiri því lengra sem líður á tímabilið,“ segir Arneberg.

Hann segir sveifluna vera náttúrulega en flest bendi til þess að sjávarhiti á því kuldaskeiði sem nú er gengið í garð verði ekki jafn lágur og á fyrri kuldaskeiðum.