Óhætt er að segja að það hafi vakið athygli í október þegar Íslandsbanki greindi meðal annars frá því að bankinn stefndi að því að draga úr viðskiptum við fjölmiðla sem bjóða upp á afgerandi kynjahalla hvað varðar viðmælendur og fjölmiðlafólk. Aðgerðir Íslandsbanka vöktu hörð viðbrögð og sendi Blaðamannafélag Íslands meðal annars frá sér ályktun þar sem sagði meðal annars að aðgerðirnar væru fráleit aðför að ritstjórnarlegu sjálfstæði fjölmiðla.

„Ég held að viðbrögðin við þessu hafi sagt til um að fólk sé almennt til í að tala um hlutina en ekki framkvæma,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri. „Við erum búin að samþykkja okkar samfélagsstefnu sem snýr að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og jafnrétti kynjanna er eitt af þeim. Við viljum svo sannarlega vera sterkt hreyfiafl í þessum efnum.

Þetta var þung umræða sem við lentum í, við sjáum ekki eftir að hafa sett málið á dagskrá en hefðum getað verið skýrari í framsetningu. Umræðan hreyfði við mörgum og við áttum góð samtöl við viðskiptavini. Þetta var einn af stærstu mánuðunum okkar í nýjum einstaklingum í viðskiptum en neikvæð viðskiptaleg áhrif voru hverfandi.“

Þrátt fyrir að bankastjórar tveggja viðskiptabankanna séu konur segir Birna að fjármálageirinn sé enn mjög karllægur og þá sérstaklega á fjárfestingabankahliðinni og segir það vonbrigði að ekki hafi tekist að fjölga konum á því sviði.

„Það kemur ekki neinum í atvinnulífinu á óvart að ég hef alltaf lagt áherslu á jafnréttismál og einsetti mér það þegar ég tók við þessu starfi að ég ætlaði að vinna að þeim málaflokki og hef reynt að gera það eins vel og ég get.

Fjármálakerfið er mjög karllægt. Bæði hér á landi en það er enn verra erlendis. Það er hending ef maður á í samskiptum við konu hjá þeim aðilum sem við eigum í samskiptum við. Fjárfestingarbankastarfsemi á Íslandi er sérlega karllæg og hún er það út í heimi líka. Það eru vonbrigði hvað okkur hefur gengið hægt að fjölga konum í fjárfestingarbankanum og það er eitthvað sem við erum að einsetja okkur og  ég ætla að ná árangri í. Eins og ég hef svo oft sagt þá er þetta ákvörðun, ef þú ætlar að gera þessa breytingu og ert fylgin þér í því þá gerast hlutirnir. Á þessu sviði hafa þeir gerst mjög hægt en við gefumst ekki upp.“

Að sögn Birnu hefur ekki reynst erfitt að fá konur inn í störf í fjárfestingarbankastarfsemi en það hafi hins vegar reynst erfiðara að halda þeim.

„Það er ekki erfitt að fá þær inn en ég get alveg viðurkennt að það er erfitt að halda þeim. Það er ákveðinn kúltur sem þarf að breytast bæði hér heima og erlendis. Ég hef mikla reynslu af þessu og það er ekki fyrr en það er kominn góður hópur af konum að þeim fari að líða vel í svoleiðis umhverfi sem er eitthvað sem maður þarf að skapa. Þ.e. þegar þú ert með teymi á þessu sviði er ekki ekki nóg að það sé ein kona þar inni heldur verða þær að vera fleiri.“

Nánar er rætt við Birnu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .