Vonir Festi stóðu til þess að draga myndi úr kostnaði vegna óháðs kunnáttumanns, vegna sáttar við Samkeppniseflitið, eftir því sem á leið. Þær væntingar hafa ekki staðist. Kostnaður vegna starfa hans námu um 15,3 milljónum króna á síðasta ári. Þetta kom fram í máli Þórðar Már Jóhannessonar, stjórnarformanns félagsins, á aðalfundi í dag samkvæmt kynningu fundarins.

Umrædd sátt var undirrituð þegar N1 og Festi sameinuðust en meðal skilyrða hennar var að sameinað félag myndi annaðhvort selja verslun Kjarvals á Hellu eða Krónunnar á Hvolsvelli. Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur það ekki gengið eftir og hefur Samkeppniseftirlitið nú hafið rannsókn á mögulegum brotum gegn sáttinni. Þriðja atrennan að sölunni á Hellu var stöðvuð af eftirlitinu í kjölfar álits óháða kunnáttumannsins á sölunni.

Lögmaðurinn Lúðvík Bergvinsson, fyrrverandi þingmaður, er óháður kunnáttumaður vegna sáttarinnar. Kostnaður við störf hans var nokkuð ræddur í fyrra þegar fram kom að hann hefði fengið greitt 33,1 milljón króna árið 2019. Alls hefur hann fengið 55,6 milljónir króna frá því að hann tók til starfa. Þá hefur lögfræðikostnaður Festi numið rúmlega 24 milljónum króna vegna þessara mála frá 2018 og samanlagður kostnaður því 80 milljónir króna.

„Samstarf við óháðan kunnáttumann hefur ekki gengið eins vel og Festi hefði kosið. Hefur félaginu á tíðum þótt skorta á að leiðbeiningar kunnáttumanns væri með þeim hætti sem vænta mætti,“ segir í kynningunni. Félagið mun að aðalfundi loknum óska eftir breytingu á aðkomu kunnáttumannsins vegna þessa auk þess að kostnaður vegna hans hafi reynst mun meiri en samkeppnisaðila vegna kunnáttumanna þeirra.

Í kynningunni er einnig spurt hvort sáttin hafi orðið neytendum til hagsbóta en það var helsta markmið hennar. Til að mynda er bent á að eldsneytissalan Dælan, sem var í eigu N1, sé nú komin í hendur Skeljungs. Tilraunir til að selja verslanir á Hellu og Hvolsvelli hafi ekki borið árangur meðal annars vegna andstöðu úr byggðarlögunum. Að óbreyttu finnist enginn kaupandi og því viðbúið að Kjarvalsversluninni á Hellu verði lokað og þar með loki eina verslunin í bænum.