Mikið af kunnuglegum nöfnum eru meðal þeirra sem hafa eignast hlut í Sjóvá í gegnum SF1 sem hefur keypt 52% hlut í Sjóvá. Eina fyrirtækið meðal stærstu kaupenda er Samherji sem hefur eignast hlut í gegnum 45% hlut sinn í Síldarvinnslunni. Meðal kaupenda eru einnig félögin Sigla ehf., Draupnir og Arkur, en þessi félög tengjast öll gamla Íslandsbanka þar sem eigendur þeirra, þeir Finnur Reyr Stefánsson, Tómas Kristjánsson og Jón Diðrik Jónsson, eru allir fyrrverandi framkvæmdastjórar bankans.

Eigendur Siglu eru Tómas og Finnur, núverandi eigendur fasteignaþróunarfélagsins Klasa, og eigandi Draupnis er Jón Diðrik, einn af eigendum Capacent Glacier á tímabili. Einnig er Steinunn Jónsdóttir, kona Finns Reyrs, meðal hluthafa í gegnum félag sitt Ark ehf. en hún átti á sínum tíma hlut í Íslandsbanka og sat í stjórn bankans. Samkvæmt upplýsingum frá SF1 fer enginn hluthafi með meira en 10% hlut í Sjóvá.

Meðal annarra eigenda Sjóvár í gegnum SF1 er EGG ehf. sem er í eigu Ernu Gísladóttur, fyrrum forstjóra B&L en hún situr í stjórn Sjóvár núna.

Lífeyrissjóðir meðalstærstu eigenda

Lífeyrissjóðir eru einnig meðal stærstu eigenda SF1 en þeir eru: Gildi lífeyrissjóður, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóðir Bankastræti 7 (LSR) og Stapi lífeyrissjóður. Aðrir lífeyrissjóðir sem eiga hlut í Sjóvá gegnum SF1 eru Festa lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður bænda. Fagfjárfestasjóðirnir SÍA 1 og Stefnir ÍS-5 er einnig meðal eigenda í SF1.

SF1 á eins og áður segir 52% hlut í Sjóvá en aðrir hluthafar í Sjóvá eru: Seðlabankinn með 21% hlut, SAT – skilanefnd Glitnis með 18% hlut og Íslandsbanki með 9% hlut.

Sjóvá birti nýlega afkomu ársins 2010 og skilaði félagið 811 milljóna króna hagnaði eftir skatta sem jafngildir 6,6% arðsemi eigin fjár en verðbólga var á sama tíma 2,6%. Auk Ernu Gísladóttur sitja nú í stjórn Sjóvár Frosti Bergsson, Haukur C. Benediktsson, Þórhildur Ólöf Helgadóttir og Heimir V. Haraldsson.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.