Sendinefnd frá Kúrdistan er stödd hér á landi og hefur á síðustu dögum átt í viðræðum og kynnt sér starfsemi ýmissa íslenskra fyrirtækja. Má þar nefna Sláturfélag Suðurlands, lyfjafyrirtæki, auk þess að heimsækja verkfræðistofur. Kúrdísku fjárfestarnir eru á landinu fyrir tilstuðlan Arann T. Karim, tæknifræðings hjá ISOR.

„Við viljum kynna kúrdísk yfirvöld fyrir þeim tækifærum sem í boði eru á nýtingu jarðvarma og mögulegri aðkomu íslenskra fyrirtækja.

Í Kúrdistan búa tæplega 5 milljónir manna og umhverfi þar er öruggt. Því eru tækifærin mikil fyrir báða aðila,“ segir Arann. Hann segir að þar í landi sé einnig góður markaður fyrir íslenskar kjötvörur.