Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) fyrirhugar að óbreyttu að leggja frekari kvaðir á Mílu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í drögum að markaðsgreiningu, á heildsölumörkuðum fyrir staðaraðgang og miðlægan aðgang með fasttengingu, sem stofnunin kynnti til samráðs á síðasta degi aprílmánaðar.

Markaðirnir sem undir eru að þessu sinni eru annars vegar markaður fyrir heimtaugar, bæði kopar og ljósleiðari, ásamt sýndarlausnum sem uppfylla sömu þarfir og heimtaugaleiga. Hins vegar er um að ræða markað sem samanstendur af bitastraumslausnum sem veita tengingu milli endanotanda og aðgangspunkts.

Líkt og fjallað var um í Viðskiptablaðinu 8. apríl síðastliðinn hefur verið beðið eftir umræddri markaðsgreiningu um nokkurt skeið. Síðasta greining á umræddum mörkuðum var unnin árið 2014 og kvaðir lagðar á samkvæmt henni. Markmið PFS hefur verið að vinna slíkar greiningar á tveggja til þriggja ára fresti. Að þessu sinni liðu hins vegar um sex ár á milli.

Niðurstaða greiningarinnar árið 2014 var sú að á báðum mörkuðum, sem að vísu voru samkvæmt eldri skilgreiningu þar um, hafi Míla verið með umtalsverðan markaðsstyrk. Sökum þess voru ýmsar kvaðir lagðar á fyrirtækið. Má þar nefna kvöð um aðgang, jafnræði, gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað, kostnaðarbókhald og eftirlit með gjaldskrá félagsins. Þá var Míla með um 83% markaðshlutdeild á fyrrgreinda markaðnum og 65% markaðshlutdeild á þeim síðari.

Ekki tilefni til að skipta landinu upp

Síðan þá hefur talsvert vatn runnið til sjávar og talsverð uppbygging á ljósleiðarakerfi átt sér stað. Þar hafa farið fremst í flokki fyrrgreind Míla og síðan Gagnaveita Reykjavíkur (GR). Önnur staðbundnari fyrirtæki og sveitarfélög hafa einnig lagst í slíka uppbyggingu. Míla hefur notið góðs af gömlu kopartaugunum sem liggja víða um land en uppbygging GR hefur að meginstefnu verið á höfuðborgarsvæðinu og í nærsveitum. Sem kunnugt er hefur uppbygging ljósleiðara á landsvísu hins vegar eilítið setið á hakanum á meðan tveir strengir eru lagðir þvers og kruss á höfuðborgarsvæðinu.

Athygli vekur að PFS telur ekki tilefni til að skipta landinu upp í mismunandi markaðssvæði. Í greiningunni er bent á að í lok síðasta árs hefði ljósleiðaranet GR náð til um 73% heimila landsins, það er ríflega 102 þúsund heimila, og áætlar félagið að í lok þess árs verði talan í kringum 128 þúsund tengingar. Flest eru þau á suðvesturhorninu. Ljósleiðaraheimtaugar Mílu náðu á móti í byrjun árs til um 79 þúsund heimila og áætlar félagið að ná að tengja um 17 þúsund heimili til viðbótar áður en árið er á enda.

„Þessi uppbygging GR hefur þó ekki orðið til þess að Síminn hafi talið sig knúinn til að lækka verð í smásölu á starfssvæði GR. Eins og nánar verður gerð grein fyrir síðar eru vísbendingar um að Símasamstæðan haldi verðum niðri eða stundi niðurgreiðslur á viðkomandi markaði með mikilli álagningu og þar með hagnaði á línugjaldi á smásölustiginu í tengslum við heimilistengingar og tiltekinni háttsemi í tengslum við fyrirtækjatengingar,“ segir meðal annars í drögum PFS.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .