Kvæðamannafélagið Iðunn byrjar félagsstarf sitt á nýju ári með kvæðalagaæfingu miðvikudaginn 2. janúar og fræðslu- og skemmtifundi föstudaginn 4. janúar. Báðar samkomurnar verða í menningarmiðstöðinni Gerðubergi og hefjast kl. 20:00. Á dagskrá fundarins verður ýmislegt efni í bundnu máli og óbundnu, vísur hagyrðinga og kveðskapur kvæðamanna, einnig sungnir söngvar og flutt efni sem tengist áramótum.

Í fundarbyrjun er það sem félagsmenn kalla „litla hagyrðingamótið“, þar koma fram þrír vísnasmiðir. Fjallað verður um Sigurð Þórarinsson jarðfræðing og ljóðagerð hans, m. a. verður kveðin Surtseyjar-ríma sem hann orti í tilefni af því fræga eldgosi og sögur af gosinu verða sagðar. Kynntur verður rímnalagakaflinn í þjóðlagasafni séra Bjarna Þorsteinssonar. Fyrir kaffihlé verður samkveðskapur og samsöngur fundarmanna og í fundarlok verður að venju farið með vísur sem ortar verða af hagyrðingum á fundinum. Er það nefnt að gera að afla „Skáldu“, en svo nefnist smábátur sá sem frumortum vísum fundarmanna er safnað í.

Fundurinn er öllum opinn, bæði félagsmönnum og gestum svo og áhugafólki um þjóðlegar listgreinar kvæðamanna og hagyrðinga.