Jan Kvarnström mun ekki taka við sem formaður stjórnar Glitnis eftir að nauðasamningar hafa verið kláraðir. Þetta kemur fram á vef slitastjórnar Glitnis í dag. Greint var frá því á fundi með kröfuhöfum í september í fyrra að Kvarnström tæki við starfinu að lokinni slitameðferð. Hann hefur mikla reynslu af endurskipulagningu fjármálafyrirtækja.

Á vef Glitnis í dag segir hins vegar að þegar ráðning Kvarnström var tilkynnt hafi verið gert ráð fyrir því að nauðasamningar myndu ganga í gegn fyrr en raun ber vitni. Erindi vegna fyrirhugaðra nauðasamninga hafi verið sent Seðlabankanum í nóvember í fyrra en svar ekki borist fyrr en 23. September.

„Allt frá því í september í fyrra hafa orðið miklar breytingar á eignasafni Glitnis og lausafé hefur aukist í hlutfalli við aðrar eignir. Hlutverk verðandi stjórnarformanns hefur því breyst mikið,“ segir í yfirlýsingu á vef Glitnis.

Vegna þessa hefur orðið samkomulag á milli slitastjórnar Glitnis og Kvarnström um að hann komi ekki til starfa.