Raforkusalan Straumlind, sem tók til starfa 1. mars síðastliðinn, hefur sent Samkeppniseftirlitinu erindi og farið fram á að kannað verði hvort samkeppnishættir Íslenskrar orkumiðlunar (ÍOM) séu til þess fallnir að hindra samkeppni á markaðnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Straumlind.

Í tilkynningunni segir að þegar félagið hóf starfsemi hafi það boðið 6,98 kr. á kílówattstundina en á þeim tíma var það um 14% lægra verð en aðrir markaðsaðilar buðu upp á. Þar skar ÍOM sig úr með verðið 7,15 kr./kWst. Sama dag og Straumlind tók til starfa lækkaði ÍOM verð sitt um fjórðung úr krónu sem Straumlind svaraði með tíu aura lækkun. Degi síðar lækkaði ÍOM um tíu aura, Straumlind gerði slíkt hið sama og ÍOM lækkaði aftur um tíu aura. Var kílówattstundin þá seld frá félaginu á 6,7 kr. meðan Straumlind bauð 6,78 kr.

„Af framangreindu er ljóst að nýju sölufyrirtæki á raforkusölumarkaði var mætt með mjög ágengum lækkunum á verði af hálfu ÍOM,“ segir í tilkynningunni. Félagið hafi því kvartað til SKE vegna þessa. Þar er enn fremur bent á að heildsöluverð raforku hafi lækkað um áramótin en enginn raforkusali hafi lækkað verð hjá sér.

„Straumlind hefur ákveðið að lækka verðið enn á ný og býður rafmagn á 6,68 kr. pr. kWst. Straumlind telur sig eiga fullt erindi á íslenskan raforkumarkað og vonar að einstaklingar og fyrirtæki taki því fagnandi að geta valið raforkusala sem leggur áherslu á lægra verð,“ segir í tilkynningunni. Framkvæmdastjóri Straumlindar er Gunnar Einarsson.