Samtök ferðaþjónustunnar segja það skjóta skökku við að stjórnmálaflokkar í landinu noti skólastofnanir til þess að hýsa flokksþing og viðburði, fremur en ráðstefnusali á vegum einkaaðila. Í fréttatilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar segir opinberar stofnanir starfi á markaði þar sem mikil samkeppni ríki. Því sé ólíðandi að stjórnmálaflokkar noti opinberar stofnanir, eins og skóla, til þess að hýsa flokksstarf sitt og fundi.

Í fréttatilkynningunni segir:

"Það hefur vakið athygli þeirra fyrirtækja sem leigja út ráðstefnusali að stjórnmálaflokkar hafa að undanförnu haldið flokksþing sín í skólastofnunum.
Vinstri grænir héldu á síðasta ári tvo fundi í Hagaskóla þ.m.t. málefnaþing um utanríkismál 22.-23. október s.l.  Samtök ferðaþjónustunnar sendu bréf til Hagaskóla og spurðu um lögboðið starfsleyfi og greiðslu virðisaukaskatts.  Vandamálið við að svara bréfi SAF, dags. 10. nóvember 2010,  reyndist svo stórt að því var vísað til borgarlögmanns, sem hefur ekki enn svarað því.
Samfylkingin hélt flokksþing sitt um síðustu helgi í Fjölbrautaskóla Garðabæjar.  Þar er starfsleyfi til staðar en sökum fárra funda á ári fellur skólinn undir undanþágu frá virðisaukaskatti.
Í Háskóla Íslands fer fram umfangsmikill ráðstefnurekstur og ekki allur á vegum HÍ.  Þar er virðisaukaskattur ekki innheimtur.
Til þess að leigja út ráðstefnusal þarf starfsleyfi skv. lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald auk þess sem greiða þarf 25.5% virðisaukaskatt af leigunni, sem er hæsti virðisaukaskattur í heimi.
Það ríkir gríðarleg samkeppni á þessum markaði og fyrir löghlýðin fyrirtæki er erfitt að eiga í samkeppni við opinberar stofnanir sem þurfa ekki að standa skil á svo háum skatti.
Það er ömurleg staða að stjórnmálaflokkarnir skuli vera búnir að skattleggja fyrirtækin svo harkalega að þeir verði sjálfir að forðast þjónustu þeirra."