Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi um helgina að gera mætti ráð fyrir að ný þingsályktunartillaga yrði lögð fram á þingi um að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir nauðsynlegt að klára málið og ef vilji er fyrir því að fara með málið í gegnum þingið þá sé hann reiðubúinn til þess. „Ég hef hins vegar ekki tekið neina ákvörðun um hvenær ég muni leggja slíkt til við ríkisstjórnina eða þá hvort ég geri það en það er alveg ljóst frá minni hálfu að málið fer ekkert aftur fram nema sem ríkisstjórnarmál og að báðir stjórnarflokkarnir komi saman að málinu,“ segir Gunnar.

„Ég held að það sé best fyrir okkur að hafa bara hreint borð í þessu. Ég hef leyft mér að tala um að þetta sé ákveðin núllstilling. Þjóðin var ekki spurð þegar við fórum í viðræðurnar og ég myndi leggja áherslu á að það væri ekki farið í slíkar viðræður án þess að slíkt yrði gert. Aðalmálið er að við höngum þarna inni sem eitthvert umsóknarríki þegar við erum í engum viðræðum og núverandi ríkisstjórn hefur engan áhuga á að sækja um. Árin líða, Evrópusambandið þróast og breytist og eins Ísland þannig að það er langbest að mínu viti að draga þessa umsókn til baka.“

Gunnar Bragi segir stjórnir Evrópusambandsins vel meðvitaðar um afstöðu ríkisstjórnarinnar og að gott samband og samstarf sé þar á milli. „Við erum ekkert að kveðja Evrópu þótt við göngum ekki í Evrópusambandið. Þvert á móti þá eru þetta okkar helstu samstarfsaðilar. Evrópusambandið er bara allt annað og meira en tvíhliða samstarf og það er ástæða til að rifja það upp að við værum ekki að gera fríverslunarsamning við Kína eða önnur ríki á okkar forsendum ef við værum Evrópusambandsríki,“ segir Gunnar.

Ítarlegt viðtal við Gunnar Braga er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .