Dómari í máli embættis sérstaks saksóknara gegn níu fyrrverandi stjórnendum og starfsmönnum Kaupþings mun kveða upp úr í dag hvort málinu verður vísað frá dómi eður ei. Verjendur níumenninganna lögðu frávísunarkröfuna fram í héraðsdómi um miðjan síðasta mánuð og voru frávísunarkröfur fluttar í síðustu viku.

Björn Þorvaldssonar, saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara, segir í samtali við VB.is annað ekki liggja fyrir í málinu í dag. Verði málinu vísað frá muni dómari ákveða hvert framhald málsins verði.

Níumenningarnir eru ákværðir fyrir markaðsmisnotkun með hlutabréf Kaupþings fyrir fall bankans, þ.e. frá í nóvember árið 2007 og til 8. október árið 2008. Þeir hafi reynt að halda gengi hlutabréfanna uppi með því að kaupa eigin hlutabréf bankans á markaði og lánað völdum viðskiptavinum fjármuni til að kaupa þau án veða.

Ákærðir í málinu eru Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, sem var forstjóri bankans, Ingólfur Helgason, sem var forstjóri bankans á Íslandi, Magnús Guðmundsson, bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg og þau Einar Pálmi Sigmundsson, Birnir Snær Björnsson, Pétur Kristinn Guðmarsson, Bjarki H. Diego og Björk Þórarinsdóttir.