Xi Jinping, forseti Kína, lofaði erlendum fyrirtækjum auknum aðgangi að fjármála- og framleiðslugeira landsins í ræðu í gær auk þess sem hann sagði Kínverja ætla að auka efnahagslegt frelsi að því er The Wall Street Journal greinir frá . Þótti í ræðu hans kveða við sáttatón en viðskiptadeilur Kína og Bandaríkjanna hafa skekið markaði að undanförnu.

Xi sagði að verið væri að vinna að áætlunum um að auka aðgengi að tryggingageiranum fyrir erlenda fjárfesta, víkka út heimildir erlendra fjármálastofnana til fjárfestinga í iðnaði og draga úr tollum á innfluttar bifreiðar.

„Í heimi sem leitast eftir friði og þróun, eiga Kaldastríðshugsun og núll-summu viðhorf ekki við,“ sagði Xi meðal annars í ræðu sinni sem var um 40 mínútur. Xi nefndi þó aldrei með beinum hætti viðskiptadeilurnar við Bandaríkin eða Donald Trump.