Útlit er fyrir að í vinnslu sé Kveiksþáttur þar sem lagaákvæði um raunverulegt eignarhald á félögum koma við sögu. Í það minnsta kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál (ÚNU) nýverið upp úrskurð þar sem Skattinum var gert að afhenda þáttargerðarmönnum afrit af gögnum um raunverulegt eignarhald sex innlendra félaga.

Félögin sem um ræðir eru 365 hf., Frjáls fjölmiðlun ehf., ION Finance ehf., Lyf og heilsa hf., PCC BakkiSilicon hf. og Rhea ehf. Hið fyrsta er samkvæmt fyrirtækjaskrá RSK að fullu í eigu Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur, Sigurður G. Guðjónsson er skráður eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar og Jón Hilmar Karlsson, sonur Karls Wernerssonar, er skráður eigandi Lyfja og heilsu. Í tilfelli PCC er Waldemar Preussner gefinn upp sem eigandi að 86% hlut.

Raunverulegur eigandi ION Finance er skráður Sigurður Arnór Hreiðarsson, sonur Hreiðars Más Sigurðssonar, en eignarhlutur Sigurðar Arnórs er 0%, það er inn í fyrirtækjaskrá er stjórn skráð sem eigandi. Arndís Björnsdóttir er síðan skráð sem eigandi Rhea að fullu en félagið á meðal annars sumarhús að Veiðilæk sem gjarnan er nefnt í sömu andrá og Sigurður Einarsson.

Bæði ný og eldri gögn

Í maí á þessu ári óskuðu dagskrárgerðarmenn RÚV eftir öllum gögnum sem tengdust skráningu raunverulegra eigenda umræddra félaga. Að auki var óskað eftir afriti af öllum þeim gögnum sem fyrirtækjaskrá kynni að hafa aflað til staðfestingar á því að umræddar upplýsingar væru réttar sem og samskiptum, hvort sem er á bréfi eða rafrænu formi, í tengslum við skráninguna. Að auki var óskað eftir upplýsingum um raunverulegt eignarhald félaganna frá því að áður en lög um skráningu raunverulegra eigenda, sem samþykkt voru í fyrra, tóku gildi.

Í júní barst svar RSK. Þar kom fram að embættið hafi ráðfært sig við ráðgjafa um upplýsingarétt almennings en þrátt fyrir ráðleggingar hans væri það mat embættisins að óheimilt væri að veita almenningi aðgang að umræddum upplýsingum umfram það sem fram kemur á heimasíðu Skattsins. Lög um skráningu raunverulegra eigenda væru síðan sérlög sem gengju framar upplýsingalögum.

Í kæru Kveiks var bent á að í eldri úrskurði ÚNU hefði komið fram að almennt væri ekki gagnályktað frá ákvæðum er heimili aðgang að upplýsingum á þann veg að óupptaldar upplýsingar séu undanþegnar upplýsingarétti. Það virðist hins vegar felast í afstöðu Skattsins í málinu. Þá hafi lög um raunverulegt eignarhald ekki að geyma þagnarskylduákvæði.

Umsögn barst frá RSK þar sem fram kom það mat embættisins að yrði fallist á beiðni RÚV myndi það gefa fordæmi fyrir meðferð sambærilegra beiðna frá almenningi, óháð því hverjir beiðendur verði. Að auki byggði embættið á því að það hefði gífurlegar valdheimildir til að kalla eftir umræddum upplýsingum frá eigendum félaga og tekið fram í lögunum að þagnarskylduákvæði takmarki það ekki nema í undantekningartilfellum. Umræddar upplýsingar ættu því með réttu að vera undanþegnar upplýsingarétti. Að endingu var á því byggt að starfsemi Skattsins væri háð þagnarskyldu.

Ríkjum heimilt að auka upplýsingarétt

Lög um skráningu raunverulegra eiganda fólu í sér innleiðingu á ákvæðum ESB-tilskipunar í íslenskan rétt. Að mati ÚNU þótti ekki tækt að gagnálykta frá lögunum um að almenningur ætti ekki rétt á öðrum upplýsingum en þeim sem fram koma á vef fyrirtækjaskrár. Var það meðal annars stutt þeim rökum að í tilskipuninni sagði að almenningur skildi „að minnsta kosti“ hafa aðgang að umræddum upplýsingum.

„Jafnframt verður að hafa í huga að í 15. lið aðfararorða tilskipunarinnar er með beinum hætti gert ráð fyrir því að aðildarríkin geti leyft meiri aðgang en þann sem er veittur samkvæmt tilskipuninni,“ sagði ÚNU og því ekki unnt að byggja synjunina á ákvæðum laga um skráningu raunverulegra eigenda. Þá var ekki talið að þagnarskylduákvæði tekjuskattslaganna stæði beiðninni í vegi.

Varð það því úr að leyst var úr málinu á grundvelli upplýsingalaganna. Var á því byggt í tilfelli 365 og Frjálsrar fjölmiðlunar að þau hefðu löngum fallið undir gildissvið fjölmiðlalaga. Í þeim var meðal annars kveðið á um að eignarhald á fjölmiðlum skuli liggja fyrir og af þeim sökum var ekki talin ástæða til að synja um afhendingu þeirra gagna. Þó bæri að afmá upphæðir hlutafjármiða sem afhentir voru fyrirtækjaskrá sem og bréfaskrif milli lögmanna frá apríl 2014.

„ÚNU hefur einnig yfirfarið gögn um raunverulega eigendur félaganna ION Finance ehf., Lyfja og heilsu hf., PCC BakkiSilicon hf. og Rhea ehf. Að mati nefndarinnar geta þær upplýsingar um eignarhald félaga sem fyrir liggja í málinu ekki talist til viðkvæmra upplýsinga um einkahagi einstaklinga né mikilvæga virka viðskipta- eða fjárhagshagsmuni lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari,“ segir í úrskurðinum. Hið sama gilti þú um hlutafjármiðana auk þess að í tilfelli PCC bar að afmá vegabréfsnúmer úr tilkynningu um raunverulega eigendur sem og afrit af vegabréfi.