Hátt í 60 konur hafa farið á vettvang til lengri tíma á vegum Íslensku friðargæslunnar síðastliðinn áratug.  Rúmlega tuttugu þeirra mættu á föstudag til utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, í tilefni alþjóðlegs dags kvenna sem var í gær, 8. mars. Einnig var fagnað útgáfu nýrrar framkvæmaáætlunar ráðuneytisins um konur, frið og öryggi.

Íslenskum konum hefur fjölgað mikið í friðargæslustörfum. Árið 2004 voru þær í um 14% starfa á vegum friðargæslunnar, í dag eru þær nærri helmingur friðargæsluliða.

Utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún sagði Íslendinga oft halda á lofti nýtingu endurnýjanlegrar orku, einkum jarðorku og vatnsorku. „Slík orka finnst á nokkrum stöðum í heiminum,” sagði hún. „En kvenorkan er allsstaðar. Hana þurfum við að virkja.”