Instagram var upphaflega stofnað af Kevin Systrom og Michel Krieger til að auðvelda fólki að taka betri myndir á fyrstu iPhone símunum líkt og fjallað var um í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar.

Eftir að Facebook keypti fyrirtækið árið 2012 hefur það vaxið hratt og er í dag með meira en milljar notenda. En um leið hafa áhyggjur aukist af áhrifum félagsmiðilsins á notendur þess.

Instagram er að miklu leyti mótað af persónuleika Systroms. Hann er fullkomnunarsinni sem tekur öll sín áhugamál alla leið, hvort sem það eru keppnishjólreiðar, með aðstoð Zwift, sem vill svo til að Novator á stóran hlut í, búa til gott kaffi, spila sem plötusnúður, taka ljósmyndir eða skapa samfélagsmiðil. Systrom vildi aðeins ráða þá sem hann var viss um að myndu passa inn hjá Instagram og því var samfélagsmiðilinn lengi vel afar undirmannaður.

Hver getur keppt við Photoshop?

Að sama skapi var lögð mikil áhersla á að hampa bestu ljósmyndurunum á miðlinum. Lengi vel var efnið sem Instagram otaði beint að notendum valið inn handvirkt en ekki af algrími. En fullkomnunaráráttan hefur leitt af sér ýmsar hliðarverkanir.

Með Instagram hafa orðið til nýjar stéttir áhrifavalda og ferðabloggara, sem ferðast um heiminn og deila upplifunum og myndrænustu áfangastöðum heims. Oft þarf mörg hundruð tilraunir og hjálp Photoshop til að skapa hið fullkomna Instagram augnablik.

Venjulegt fólk, ekki síst óharðnaðir unglingar, finnur fyrir pressu á að standast ekki samanburðinn. Kannanir benda til þess að geðheilsu unglinga hafi hrakað á síðustu árum. Margir telja að samfélagsmiðlar séu þar einn helsti sökudólgurinn sem skapi falskar og óraunhæfar fyrirmyndir. Ofan á það bætist svo stöðug pressa á að nógu margir smelli á „like“ hnappinn við hverja færslu. Á sama tíma hefur áhugi á þjónustu lýtalækna aukist síðustu ár. Ekki síst að láta fylla í varir, brjóst og rassa í takt við útlit vinsælustu Instagram-stjarnanna, á borð við Kim Kardashian. Veruleikinn stenst sjaldnast samanburð við það sem skapað er í Photoshop.

Systrom lengi á bremsunni

Systrom stóð lengi sjálfur á bremsunni við margar af þeim breytingum sem hugsaðar voru til að létta örlítið af pressunni á notendum.

Til að mynda að leyfa þeim að deila fleiri en einni mynd í einu og það sem varð svo stærsta viðbótin í sögu Instagram — Stories — stutt myndskeið sem hægt var að láta hverfa. Hann gafst þó að lokum upp og kom Stories í loftið. Notendur voru farnir að deila minna af efni inn á Instagram en þess í stað farnir að færa sig yfir á Snapchat. Systrom viðurkenndi fúslega að með innleiðingu Stories væri Instagram að apa eftir Snapchat. Á þeim tímapunkti hafði Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, reynt án árangurs að kaupa Snapchat. Söluræða Zuckerbergs á fundi hans með Evan Spiegel, stofnanda Snapchat, var einföld. Annaðhvort eignaðist Facebook Snapchat eða Facebook byggi til eigin útgáfu af Snapchat og gerði Snapchat að óþörfum samfélagsmiðli.

Stjörnurnar mun áhrifameiri en almenningur

Þó svo að almenningi gefist sjaldnast kostur á að komast beint í samband við starfsmenn samfélagsmiðla til að koma til leiða ábendingum eða umkvörtunarefnum gildir ekki það sama um stórstjörnur skemmtanabransans.

Samfélagsmiðlarisarnir hafa lagt töluvert upp úr því að sannfæra þá um að nýta miðla þeirra. Þær eru því margar með beint talsamband við stjórnendur samfélagsmiðlanna. Sjálfa sem Ellen DeGeneres deildi á Twitter af Óskarsverðlaunahátíðinni árið 2014 með tólf af frægustu leikurum samtímans var til að mynda afrakstur margra mánaða undirbúningsvinnu – þó að látið hafi verið líta út fyrir að hugmyndin hafi fæðst í beinni útsendingu. Samsung, einn af helstu styrktaraðilum Óskarsverðlaunanna, sá til þess að Ellen myndi nota Samsung síma en ekki hennar eigin iPhone síma við myndatökuna.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Myndin sem varð sú vinsælasta í sögu Twitter var afrakstur margra mánaða undirbúningsvinnu.

Myndin varð að þeirri færslu sem endurtíst hafði verið oftast í sögu Twitter. Vegna hins nána sambands við stórstjörnurnar hafa margar breytingar ekki orðið fyrr en þekkustu Instagram-notendurnir hafa kallað eftir þeim, jafnvel þótt almennir notendur hafi reynt að biðja um þær um langa hríð. Þannig var það eftir kvörtun frá Taylor Swift sem Instagram fór að taka á netníði og gerði notendum kleift að loka á ákveðin orð eða tákn í athugasemdum.

Þá breytti Instagram uppröðun athugasemda þannig að athugasemdir vinsælustu notenda birtust efst, eftir að Kardashian-fjölskyldan bað um það. Þá voru 5 af 25 vinsælustu notendum Instagram hluti af Kardashian-genginu. Þá sannfærðist Systrom meðal annars um ágæti myndskilaboða Stories eftir að hafa séð með eigin augum hve hrifnar stjörnurnar voru af því að deila myndskeiðum á Snapchat, þegar hann mætti sem gestur á Óskarsverðlaunahátíðina.

Fallað er um sögu Instagram í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar. Hægt er að gerast áskrifandi hér .