Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,36%, upp í 2.146,80 stig, í 1,8 milljarða króna heildarviðskiptum.

Mest hækkun var á gengi bréfa Kviku banka, eða um 3,5%, í 182,1 milljóna króna viðskiptum, sem jafnframt eru þau þriðju mestu með eitt félag í kauphöllinni í dag. Gengi bréfanna fór í 10,35 krónur.

Næst mest var hækkun gengis bréfa VÍS, eða um 2,11%, í nánast jafnmiklum viðskiptum, eða fyrir 182,3 milljónir króna, sem þar með voru næst mestu viðskiptin í dag. Fór gengið upp í 11,14 krónur.

Mestu viðskiptin voru hins vegar með bréf Festi, eða fyrir 329 milljónir króna, en þau lækkuðu um 0,76%, niður í 130,5 krónur, en það var jafnframt það félag sem lækkaði næst mest í viðskiptum dagsins.

Brim lækkaði hins vegar mest, eða um 1,67%, niður í 38,30 krónur, í þó ekki nema 8 milljóna króna viðskiptum.

Evran og danska krónan fylgjast að eftir sem áður

Gengisbreytingar helstu viðskiptamynta íslensku krónunnar var nokkuð misvísandi, þannig lækkaði gengi evru og dönsku krónunnar gagnvart íslensku krónunni um 0,15%, evran niður í 136,55 króna kaupgengi en danska krónan í 18,273 krónur.

Bandaríkjadalurinn lækkaði um 0,18%, niður í 122,77 krónur, sænska krónan lækkaði um 0,26%, niður í 13,028 krónur, meðan breska pundið lækkaði mest, eða um 0,58%, niður í 159,83 krónur.

Hins vegar styrktust bæði japanska jenið, eða um 0,13%, í 1,1236 krónur og svissneski frankinn, um 0,09%, í 125,51 krónu. Norska krónan styrktist svo um 0,43%, í 13,692 krónur.