*

miðvikudagur, 27. janúar 2021
Innlent 25. nóvember 2020 14:19

Kvika banki og Netgíró fá að sameinast

SKE heimilar Kviku banka að eignast um 80% í Netgíró, sem tapaði 225 milljónum á síðasta ári.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup Kviku banka á um 60% hlut í Netgíró og telja þau ekki til þess fallin að raska samkeppni.
Fyrir áttu félög að mestu í eigu Skorra Rafns Rafnssonar stjórnarformanns Alva Holding ehf., móðurfélags Netgíró, um 80% í félaginu að því er Fréttablaðið greinir frá. Félagið tapaði 225 milljónum fyrir skatta í fyrra, en tapið var 523 milljónir árið 2018.

Eigið fé félagsins var neikvætt um 182 milljónir við árslok, en vaxtatekjur félagsins jukust um ríflega fimmtung og námu einum milljarði króna á síðasta ári. Viðskiptablaðið sagði frá í því í sumar að þar með eignast Kvika meirihlutann í Netgíró en með kaupunum fer eignarhlutur bankans í fyrirtækinu úr 19,9% í 80,1%.

Þá sagði Marinó Örn Tryggvason forstjóri Kviku að tækifæri væru til framtíðar í Netgíró enda sé „félagið með háa markaðshlutdeild og hjá því starfa öflugir og reynslumiklir starfsmenn“. Í samrunaskrá sem Netgíró og Kvika sendu Samkeppniseftirlitinu segja þeir þó erfitt að að segja til um hlutdeild Netgíró á markaði fyrir greiðslulausnir til neytenda.

Samrunaaðilarnir segja takmarkaða skörun vera á starfsemi Kviku og Netgíró, og kjarnastarfsemi þeirra sé ólík, þar sem lítil skörun verður milli viðskiptamannahópa þeirra. Stofnunin fellst á að samruninn hafi lítil áhrif á markað fyrir heildarlán til einstaklinga hérlendis og þar með ekki til myndunar eða stýringar á markaðsráðandi stöðu.

Sem rök um litla skörun fyrirtækjanna er bent á að Kvika veiti fyrirtækjum, stofnunum og efnameiri einstaklingum fjárfestingarbankaþjónustu sem og alhliða fjármálaþjónustu til sparifjár- og innlánseigenda, meðan Netgíró sinni lánveitingum og einföldum raðgreiðslum til neytenda.

Jafnframt sé hlutdeild Kviku og Netgíró á heildarmarkaði fyrir lán til einstaklinga lítil, eða um 0 til 5% fyrir hvorn um sig, á móti því sem samrunaðilar kalla yfirburðarstöðu stóru viðskiptabankanna þriggja. Loks meta Netgíró og Kvika sem svo að Valitor, Borgun, Korta Payments (Rapyd Europe), Síminn Pei, Pei.is, Aur.is og Greitt.is bjóði sambærilegar lausnir og Netgíró.