Fjárfestingarbankinn Kvika hefur bætt enn við hraðan vöxt sinn hérlendis með því að kaupa fyrirtækjaráðgjöf Beringer Finance á Íslandi. Með kaupunum fylgir að Baldur Stefánsson verður framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar bankans, en einnig stefna bankarnir að frekara samstarfi á norðurlöndunum að því er Fréttablaðið greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur sameining Kviku við Virðingu verið samþykktur af Fjármálaeftirlitinu, en jafnframt keypti Kvika allt hlutaféð í Öldu sjóði í síðasta mánuði.

Störfuðu lengi saman hjá Arctica

Baldur tekur þar með við starfinu af Magnúsi Bjarnasyni sem var einn þeirra átta starfsmanna sem sagt var upp hjá Kviku banka í síðasta mánuði. Verður hann ekki eini starfsmaður Beringer sem færist yfir því auk þess að kaupa starfsemi Beringer Finance hér á landi mun Kvika hefja samstarf við bankann á sviði fyrirtækjaráðgjafar í Svíþjóð og Noregi auk Íslands.

Einnig mun Sveinn Guðjónsson, sem verið hefur forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Beringer frá því í mars á þessu ári flytjast yfir, en þeir störfuðu báðir lengi vel saman hjá verðbréfafyrirtækinu Arctica Finance þar sem Baldur hafði verið meðeigandi.

Sameinaðist einum elsta fjárfestingarbanka Noregs

Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku segir samstarfið við Beringer Finance bjóða upp á áhugaverð tækifæri. Beringer Finance, sem stofnað var árið 2014 af Aðalsteini Jóhannssyni forstjóra hans, sameinaðist í fyrra einum elsta fjárfestingarbanka Noregs, Fondsfinans og starfa nú um 80 manns hjá bankanum.

Aðalsteinn segir að kjarnastarfsemi Beringer Finance á helstu mörkuðum hafi færst yfir í tækni- og hugvitsverkefni sem bankinn mun áfram sinna hér á landi sem og alþjóðlega.

„Við teljum að samstarf okkar við Kviku bjóði upp á möguleika fyrir báða aðila til að einbeita sér enn frekar að styrkleikum hvors um sig,“ segir Aðalsteinn. „[A]uk þess sem Beringer Finance mun opna nýja markiði í Skandinavíu fyrir viðskiptavini Kviku.“