*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Innlent 8. nóvember 2019 16:45

Kvika hækkaði mest í kauphöllinni

Þó Icelandair hefði lækkað mest félaga er gengið á sömu slóðum og um miðjan ágúst, og um 40% hærra en fyrir tveimur vikum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Íslands lækkar um 0,23% í vikulokin, og endar vikuna í 2.043,04 stigum, en heildarviðskiptin í kauphöllinni í dag námu 2,6 milljörðum króna.

Mest hækkun var á gengi bréfa Kviku banka, sem hækkaði um 2,55% í 114 milljón króna viðskiptum og endaði í 11,05 krónum. Næst mest hækkun var á gengi bréfa Reginn, sem hækkaði um 1,72% í 20,70 krónur, í 295 milljón króna viðskiptum, sem jafnframt voru þriðju mestu viðskiptin með bréf í einu félagi í dag.

Annað fasteignafélag, Eik var í næst mestu viðskiptunum, eða fyrir 341 milljón króna, en gengi bréfa þess lækkaði um 0,69% niður í 7,95 krónur hvert bréf. Mesta veltan var hins vegar með nýgræðinginn í aðallistanum, Icelandic Seafood, en gengi bréfa félagsins hækkaði í 368 milljón króna viðskiptum og fóru þau upp um 0,99% í 10,20 krónur.

Icelandair lækkaði mest í viðskiptum dagsins, eða um 0,91%, í þó ekki nema 41 milljóna króna viðskiptum og endaði gengi bréfa flugfélagsins í 7,59 krónum, sem er 39,3% hækkun frá því þegar það fór lægst í 5,5 króna lokagengi 21. október síðastlðinn, en síðast var það hærra en nú um miðjan ágústmánuð.

Gengi Origo lækkaði næst mest, eða um 0,80%, niður í 24,90 krónur, í lítt teljandi viðskiptum eða fyrir 16 milljónir króna.

Dalurinn í 124,5 krónum

Gengi krónunnar stóð í stað í dag gagnvart evru, sem enn fæst á 137,25 krónur, en Bandaríkjadalur hækkaði gagnvart krónunni um 0,18% og fæst hann nú á 124,53 krónur.

Hækkun breska sterlingspundsins nam 0,11%, í 159,53 krónur, en hækkun japanska jensins var mest, eða um 0,33%, og fæst eitt jen nú fyrir 1,1404 íslenskar krónur. Hins vegar lækkuðu allar norðurlandakrónurnar gagnvart þeirri íslensku, sænska krónan sínu mest, eða um 0,52%, niður í 12,828 krónur.

Stikkorð: Icelandair Reginn Nasdaq Úrvalsvísitala Eik kauphöll Origo