Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,3% í 5,9 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Átján félög aðalmarkaðarins voru rauð í viðskiptum dagsins og fjögur græn.

Mesta veltan var með hlutabréf Kviku banka, eða um 1,5 milljarðar króna. Gengi Kviku hækkaði um 3%, mest af félögum Kauphallarinnar, og stendur nú í 20,6 krónum. Næst mesta veltan var með hlutabréf Íslandsbanka sem lækkuðu um 0,6%.

Hlutabréf Símans hækkuðu einnig um 2,4% í 470 milljóna veltu og bréf Icelandair hækkuðu um 1,9% í tæplega 400 milljóna viðskiptum. Hlutabréfaverð Icelandair stendur nú í 2,12 krónum.

Níu félög aðalmarkaðarins lækkuðu um 1% eða meira í viðskiptum dagsins. Meðal þeirra var Marel sem féll um 1,5% í nærri 800 milljóna veltu. Gengi Marels, sem birtir ársuppgjör síðar í dag, stendur nú í 542 krónum.

11 milljarða velta á skuldabréfamarkaðnum

Velta á íslenska skuldabréfamarkaðnum nam 11,0 milljörðum króna. Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa, bæði verðtryggðra og óverðtryggðra, hækkaði nokkuð í kjölfar vaxtahækkunar Seðlabankans.

Ávöxtunarkrafa á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum með lokagjalddaga árið 2026 eða fyrr hækkaði um 22-25 punkta en krafan á lengri óverðtryggðum bréfum hækkaði um 7-9 punkta. Ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa í þeim flokkum þar sem viðskipti áttu sér stað hækkaði um 4-8 punkta í dag.