Hagnaður Kviku banka á síðasta ári nam 10,7 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár 35%, samanborið við aðeins 2,3 milljarða í fyrra samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins .

Vaxtamunur nam 4,6 milljörðum samanborið við 1,8 milljarða árið áður, en vaxtatekjur hartnær tvöfölduðust og námu 7,1 milljarði samanborið við 3,7, sem skýrist að mestu leyti af samruna við Lykil fjármögnun á árinu, en þróun fjármagnskostnaðar er einnig sögð hafa verið hagstæð, enda jukust vaxtatekjur aðeins um fimmtung úr 2 milljörðum í 2,5.

Hreinar þóknanatekjur námu 6,8 milljörðum og jukust um 15% milli ára og hreinar fjárfestingatekjur margfölduðust úr 830 milljónum í 5,7 milljarða, en metávöxtun var á eignamörkuðum í fyrra.

Hreinar tekjur af tryggingum námu 4,2 milljörðum, en tryggingafélagið TM og lánafyrirtækið Lykill runnu formlega inn í samstæðuna í mars í fyrra, og liðurinn er því nýr á rekstrarreikningnum. Hagnaður félaganna tveggja í upphafi árs fyrir samrunann nam 1,5 milljörðum fyrir skatta, og heildarhagnaður bankans yfir árið að þeim meðtöldum því 12 milljörðum, en í tilkynningu um ársreikninginn er aðeins minnst á hagnaðinn fyrir skatta.

Loks námu aðrar tekjur 630 milljónum og margfölduðust einnig milli ára úr 85 milljónum árið áður. Hreinar rekstrartekjur bankans námu því alls 22 milljörðum króna samanborið við 8,7 milljarða árið áður.

Heildareignir bankans í lok síðasta árs námu 246 milljörðum króna og slétt tvöfölduðust yfir árið, en eins og áður sagði runnu TM og Lykill inn í samstæðuna á árinu. Heildareignir TM höfðu numið 83 milljörðum í lok árs 2020 og að sama skapi tvöfaldast það ár með samruna við Lykil, hvers eignir voru 43 milljarðar í árslok 2019.

Eigið fé nam 78 milljörðum og eiginfjárhlutfall án tryggingastarfsemi 34%. Eignir í stýringu námu 528 milljörðum.

Bankinn tilkynnti samhliða birtingu uppgjörsins um kaup á meirihluta í sérhæfða lánafyrirtækinu Ortus Secured Finance Ltd. í Bretlandi í gegn um dótturfélag sitt þar í landi, Kvika Securities. Bankinn eignaðist 15% hlut í félaginu árið 2018 en heldur eftir kaupin á tæpum 80% hlut. Meðal seljenda eru Stoðir hf. sem seldu allan 30% hlut sinn.