Hagnaður Kviku banka nam 2,9 milljörðum króna á síðasta ársfjórðungi og sjöfaldaðist milli ára. Hreinar vaxtatekjur námu 1,2 milljörðum og 2,5-földuðust milli ára, og hreinar þóknanatekjur námu 1,6 milljörðum og jukust um fimmtung. Þetta kemur fram í nýútgefnu fjórðungsuppgjöri félagsins .

Hreinar fjármagnstekjur námu 1,6 milljörðum, samanborið við 130 milljónir í fyrra. Eigið fé bankans nam 76 milljörðum í lok fjórðungsins og arðsemi eigin fjár fyrir skatta nam 36%. Heildareignir í lok tímabilsins námu 234 milljörðum. Lausafjárþekja var 171% og heildareignir í stýringu námu 512 milljörðum.

Sé horft á fyrstu 9 mánuði ársins nemur hagnaður bankans 8 milljörðum króna samanborið við 1,3 milljarða á sama tímabili í fyrra.