Hagnaður Kviku banka á öðrum ársfjórðungi er áætlaður um 3,6 milljarðar króna fyrir skatta samkvæmt drögum að fjórðungsuppgjöri bankans, sem jafngildir 20,6% arðsemi eiginfjár fyrir skatta á ársgrundvelli.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar eru tvær ástæður nefndar, annarsvegar góð afkoma TM og hinsvegar vaxandi hreinar þóknana- og vaxtatekjur.

Samsett hlutfall tryggingafélagsins – hlutfall tjóna og rekstrarkostnaðar af iðgjöldum – var 80,8% á fjórðungnum, sem er sögulega lágt, og ávöxtun fjáreigna 3,6%. Hreinar þóknanatekjur jukust um ríflega fimmtung milli fjórðunga og námu rúmum 2 milljörðum króna, og hreinar vaxtatekjur 1,16 milljörðum.

Eigið fé bankans nam tæpum 70 milljörðum króna í upphafi ársfjórðungsins samkvæmt uppgjöri undangengins fjórðungs. Tekið er fram að tölurnar eru ekki endanlegar, enda enn í vinnslu, en það verður birt í heild sinni þann 26. ágúst næstkomandi.