Kvika banki hagnaðist um 1,7 milljarða króna eftir skatta á fyrstu sex mánuðum ársins. Hagnaður bankans fyrir skatta nam 2.167 milljónum og Arðsemi vegins efnislegs eigin fjár fyrir skatta var 10,0% á tímabilinu.

Hagnaður Kviku fyrir skatta var um 427 milljónir á öðrum fjórðungi en bankinn hafði áætlað um miðjan maí síðastliðinn að hagnaðurinn yrði á bilinu 2,15-2,4 milljarðar. Munurinn skýrist einkum af því að fjárfestingartekjur voru 1,9 milljörðum undir áætlun líkt og kom fram í afkomuviðvörun fyrir mánuði síðan.

Sjá einnig: Hagnaður Kviku 1,8 milljörðum undir áætlun

Hreinar vaxtatekjur Kviku námu 3.426 milljónum króna og jukust um 93% miðað við sama tímabil árið áður. Kvika rekur aukninguna að mestu til stækkun og breyttri samsetningu lánasafns vegna samruna við Lykil fjármögnun og kaupum á Ortus Secured Finance, breyttri samsetningu lausafjáreigna ásamt hagstæðri þróun fjármagnskostnaðar.

Hrein virðisrýrnun nam 96 milljónum króna á tímabilinu samanborið við jákvæðar virðisbreytingar upp á 104 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins 2021.

Hreinar fjárfestingatekjur voru neikvæðar um 91 milljón króna á fyrri helmingi ársins „við krefjandi aðstæður á eignamörkuðum“. Hreinar þóknanatekjur námu 3.219 milljónum króna sem er 8,4% lækkun frá fyrra ári.

Samsett hlutfall TM, dótturfélags Kviku, nam 99,9% á fyrri helmingi ársins samanborið við 91,5% á sama tímabili árið á undan. Tap vegna fjárfestinga tryggingafélagsins nam 361 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins og ávöxtun eignasafnsins því -1,0% á tímabilinu samanborið við 9,3% ávöxtun á fyrri helmingi síðasta árs.

Útlán til viðskiptavina jukust um rúma 26 milljarða króna á tímabilinu og námu 98 milljörðum króna í lok júní en aukningin er að stórum hluta til komin vegna kaupa á Ortus Secured Finance.

Heildareignir Kviku jukust um 16% eða 41 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins og námu 287 milljörðum króna í lok júní. Eigið fé samstæðunnar var 79 milljarðar króna í lok tímabilsins samanborið við 78 milljarða króna í lok 2021.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku:

Fyrstu sex mánuðir ársins 2022 hafa verið viðburðaríkir bæði hjá samstæðu Kviku, á mörkuðum og í heiminum öllum. Á slíkum tímum er ánægjulegt að sjá ákvarðanir um áhættudreifingu rekstrar bera ávöxt, en félagið skilar jákvæðri afkomu á öðrum ársfjórðungi þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður á verðbréfamörkuðum sem höfðu talsverð áhrif á fjárfestingatekjur samstæðunnar. Þá heldur grunnrekstur félagsins áfram að styrkjast og utan fjárfestingatekna er afkoma í fullu samræmi við útgefna afkomuspá.

Spennandi verkefni liggja fyrir hjá samstæðunni en í maí var tilkynnt um fyrirætlanir um stofnun dótturfélags í greiðslumiðlun og kaup á viðskiptagrunni sem gerir það að verkum að markaðshlutdeild dótturfélagsins verður veruleg. Í upphafi árs keypti Kvika meirihluta í Ortus, sem sérhæfir sig í fasteignatryggðum brúarlánum í Bretlandi, en vænta má að starfsemin í Bretlandi muni smám saman hafa meiri áhrif á afkomu félagins. Þá var annað stórt skref einnig stigið í maí þegar Kvika fékk sitt fyrsta lánshæfismat frá alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækinu Moody‘s sem opnar nýja möguleika við fjármögnun samstæðunnar og gerir okkur kleift að halda áfram að ná árangri með því að veita öðrum fjármálafyrirtækjum aukna samkeppni. Dæmi um slíka samkeppni er innlánastarfsemi Auðar sem mér þótti sérstaklega skemmtilegt að sjá vaxa um rúmlega 50% frá áramótum.

Við lítum seinni helming ársins björtum augum og hlökkum til að takast á við þau tækifæri og áskoranir sem framundan eru. Samhliða birtingu uppgjörsins er gefin út uppfærð afkomuspá fyrir næstu 12 mánuði, í samræmi við þá aðferðafræði sem félagið hóf notkun á í byrjun árs, og gerir sú spá ráð fyrir að afkoma félagsins aukist enn frekar.“