Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Kviku banka stefnir í að hagnaður félagsins fyrir skatta verði örlítið hærri en afkomuspá félagsins gerði ráð fyrir eða 2,34 milljarðar króna á árinu 2020.

Afkomuspá Kviku fyrir árið 2020 var síðast hækkuð í október og gerði þá ráð fyrir að afkoma fyrir skatta yrði á bilinu 2-2,3 milljarðar króna en var áður 1,7-2,3 milljarðar króna.

Þá gerir félagið ráð fyrir að hagnaður félagsins í núverandi mynd verði 2,6-3 milljaðrar króna á árinu 2021.

Hins vegar mun afkomuspáin taka miklum breytingum verði samruni félagsins við TM og Lykil samþykktur. Vonast er til að samruninn gangi í gegn fyrir lok marsmánaðar. Eftirlitsaðilar og hluthafafundir félaganna eiga eftir að samþykkja samrunann og því ekki gert ráð fyrir honum í áætluninni.

Stjórn Kviku leggur til við hluthafa að félagið greiði ekki arð á árinu 2021 vegna samrunans. Hins vegar verður lögð fram heimild til að kaupa eigin bréf.

Kvika gekk í síðustu viku frá kaupum öllum hlutabréfum í Netgíró. Þá var haft eftir Marínó Erni Tryggvasyni, forstjóra Kviku, að kaupin myndu hafa jákvæð áhrif á afkomu bankans.