Kvika banki hagnaðist um 654 milljónir fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi að því kemur fram í óendurskoðuðu uppgjöri bankans. Afkoman var nokkru betri en gert var ráð fyrir en afkomuspá bankans fyrir árið 2018 hefur verið uppfærð um 115 milljónir til hækkunar á hagnaði fyrir skatta. Því er gert ráð fyrir að afkoma fyrir skatta verði 1.931 milljón á öllu árinu.

Arðsemi eiginfjár bankans fyrir skatt nam því 23,9% sem er öllu hærra en arðsemi eigin fjár stóru viðskiptabankanna þriggja á undanförnum árum.

Tekjur bankans á fjórðungnum skiptust þannig að hreinar vaxtatekjur námu 412 milljónum, hreinar þóknanatekjur námu 1.012 milljónum króna, hreinar fjárfestingartekjur námu 196 milljónum, hlutdeildartekjur voru neikvæðar um 2 milljðónir og aðrar tekjur voru 25 milljónir. Samtals voru hreinar rekstrartekjur því 1.643 milljónir króna. Rekstrarkostnaður nam 1.018 milljónum og virði útlána jókst um 30 milljónir.

Staða handbærs fjár hefur batnað nokkuð frá því í árslok 2017 þegar hún nam tæpum 20 milljörðum. Í lok fjórðungsins var handbært fé bankans 32,6 milljarðar. Lausafjárhlutfall var 184% í lok ársfjórðungsins.

Eiginfjárhlutfall bankans var 21,7% en 23,3% með tilliti til afkomu ársfjórðungsins. Eignir námu samtals 94,6 milljörðum króna.