Hagnaður Kviku eftir skatta nam 1.032 milljónum króna fyrir fyrstu níu mánuði ársins samkvæmt óendurskoðuðu móðurfélagsuppgjöri bankans.

Afkoma þriðja ársfjórðungs fór verulega fram úr áætlunum og nam hún 659 milljónum króna, en afkoma fyrstu sex mánuði ársins nam 373 milljónum króna sem var í takt við áætlanir.

Eigið fé rúmir 6 milljarðar

Helsta ástæðan var góð afkoma fyrirtækjasviðs bankans, aukin umsvif í gjaldeyrismálum og auknar fjárfestingartekjur.

Nemur eigið fé Kviku í lok september tæpum 6,2 milljörðum króna, og hefur eiginfjárhlutfall samstæðunnar hækkað úr 18,0% í lok júní upp í 20,5% nú.

„Kvika er með skráð víkjandi skuldabréf hjá Nasdaq Iceland í flokknum KVB 15 01. Skuldabréfin eru til 10 ára og teljast til eiginfjárliðar B. Þá er bankinn einnig með skráða víxla í flokkunum KVB 16 1221 og KVB 17 0323,“ segir í fréttatilkynningu frá bankanum.

„Hafa ber í huga að forsendur og aðstæður geta tekið breytingum og þar af leiðandi getur afkoma bankans orðið frábrugðin núverandi horfum.“