Samkvæmt óendurskoðuðu samstæðuuppgjöri Kviku banka fyrir fyrsta ársfjórðung þessa árs nemur hagnaður fyrirtækisins eftir skatta 397 milljónum króna. Það er talsvert betri afkoma en spár bankans gerðu ráð fyrir. Afkoma bankans á fyrsta ársfjórðungi einnig allmikið hærri en á fyrsta ársfjórðungi ársins 2016, þegar bankinn hagnaðist um 176 milljónir króna.

Í afkomutilkynningu Kviku banka segir að starfsemi bankans á fyrsta ársfjórðungi hafi gengið vel. Eignir í stýringu hjá bankanum námu 131 milljarði króna í lok mars 2017 og hafa vaxið um 10 milljarða króna frá áramótum. Horfur fyrir starfsemi bankans út árið 2017 eru mjög góðar að því er kemur fram í afkomutilkynningunni.

Eigið fé Kviku nam í lok mars 2017 tæplega 7,5 milljörðum króna og námu heildareignir bankans 100 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall samstæðu í lok mars 2017 var 19,9% miðað við framgreinda afkomu.