Íslenski fjárfestingabankinn Kvika hefur hlotið viðurkenninguna „Best Investment Management Company“ á Íslandi. Bankinn er þar með fremstur í flokki íslenskra banka og fjármálafyrirtækja á sviði eignastýringar. Tímaritið World Finance útnefnir árlega fyrirtæki fyrir framúrskarandi árangur, en þetta er þriðja árið í röð sem bankinn hlýtur þessa viðurkenningu.

Við matið er meðal annars horft til áragnurs, vaxtar, vöruþróunar, viðhorfs til áhættu og samfélagslegrar ábyrgðar. Í fréttatilkynningu Kviku kemur fram að eignir í stýringu hafi um það bil tvöfaldast á síðustu þremur árum.

Kvika varð til við samruna MP banka og Straums fyrir um ári, en félagið sérhæfir sig í eignastýringu og alhliða fjármálaþjónustu. Á norðurlöndunum hlutu félög á borð við Danske Capital, Skagen Funds og Axa Investment Management sömu viðurkenningu.

Í nýjasta tölublaði World Finance er rætt við Sigurð Hannesson, núverandi framkvæmdarstjóra eignastýringar Kviku, en þar fjallar hann meðal annars um efnahagsbatann á Íslandi, þróun markaða og losun fjármagnshafta.