Kvika og dótturfélag Kviku í Bretlandi hafa lokið 12,5 milljóna punda stækkun á fjármögnun fyrir breska fjárfestingafélagið OSF II. Það samsvarar tæplega 2 milljörðum íslenskra króna. Heildarfjármögnun félagsins nemur nú um 30 milljónum punda eða sem nemur tæpum 5 milljörðum króna að því er segir í fréttatilkynningu frá bankanum.

Alls eru fjárfestar í OSF II nú rúmlega 90 talsins og samanstanda af íslenskum lífeyrissjóðum, fjármálafyrirtækjum og fjölda annarra innlendra og erlendra fjárfesta. OSF II fjárfestir í fasteignatengdum brúarlánum í Bretlandi og Norður Írlandi, en sá markaður hefur verið í örum vexti á undanförnum árum og nemur í dag yfir 5 milljörðum punda.

OSF II er rekið í samstarfi við reynslumikið teymi hjá breska fasteignalánafélaginu Ortus Secured Finance, sem stofnað var árið 2012 segir jafnframt í tilkynningunni.

Gunnar Sigurðsson
Gunnar Sigurðsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kviku í Bretlandi, starfsemi OSF II hafa gengið vel frá stofnun í ársbyrjun 2018 og ávöxtun verið í takti við væntingar.„Stækkun fjármögnunar félagsins nú er í beinu framhaldi af þessum góða árangri,“ segir Gunnar.

„Margir af núverandi fjárfestum tóku þátt í stækkuninni en einnig er fjöldi nýrra fjárfesta að koma að verkefninu í fyrsta sinn, sem staðfestir enn frekar mikinn áhuga viðskiptavina okkar fyrir áhugaverðum fjárfestingatækifærum í Bretlandi. Uppbygging starfsemi Kviku í Bretlandi hefur gengið vel og verkefnastaðan er sterk. Við erum því bjartsýn á að vera í góðri stöðu til að halda áfram að bjóða viðskiptavinum Kviku upp á áhugaverða fjárfestingakosti í Bretlandi á komandi misserum.“